SEM logo

SEM logo

SEM logo

Norræni mænuskaðadagurinn er haldinn síðasta föstudag í apríl ár hvert. Til þess að vekja athygli á málefnum mænuskaddaðra var ákveðið á fundi í NORR* í Helsinki í júní 2008 að semja sérstaka yfirlýsingu vegna norræna mænuskaðadagsins.

Mænuskaði (mænuáverki) veldur yfirleitt varanlegri fötlun með lömun og skyntapi fyrir neðan áverkasvæðið í mænunni. Hár mænuskaði veldur lömun bæði í efri og neðri útlimum og er kallaður fjórlömun (tetraplegia) en mænuskaði í mittishæð veldur eingöngu lömun í neðri útlimum (paraplegia). Áverkinn á mænunni getur ýmist verið alger (alskaði) eða að hluta til (hlutskaði). Auk lömunar og skyntaps fylgja mænusköðum oft ýmis önnur líkamleg, sálræn og félagsleg vandamál. Fyrir utan slys geta ýmsir sjúkdómar einnig valdið skemmdum á mænu með svipuðum einkennum.

*NORR = Nordiska Ryggmärgsskaderådet (Norræna mænuskaðaráðið) en í því eru fulltrúar frá félögum mænuskaddaðra á Norðurlöndum. Fulltrúi Íslands er formaður SEM-samtakanna.

Í YFIRLÝSINGUNNI ERU SETT FRAM NOKKUR MEGINMARKMIÐ:

AFNEMA HINDRANIR

Í skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á fötlun segir: „Fötlun mótast af færniskerðingu einstaklings og því umhverfi sem hann lifir í. Fatlaðir komast ekki yfir menningarlegar, efnislegar og félagslegar hindranir sem aðrir borgarar fara greiðlega yfir á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Fatlaðir missa þannig af tækifærum til jafns við aðra til að geta orðið virkir þátttakendur í samfélaginu.“

Markmið: Fækka hindrunum svo menn geti valið leiðir án tillits til þeirrar færniskerðingar sem þeir kunna að búa við.

KOMA Í VEG FYRIR MÆNUSKAÐA

Umferðarslys er algengasta orsök mænuskaða. Við bætast ýmsar aðrar orsakir.

Markmið: Leggja áherslu á aðgengilegt fræðsluefni, góða skráningu, skýrslugerð og upplýsingar í fjölmiðlum.

SKILJA HVERNIG MÆNAN SKADDAST OG GERA MEÐFERÐ MARKVISSARI

Mænan getur skaddast á mismunandi hátt. Einnig getur mænan skaddast á mismunandi stöðum. Vegna þess að einkenni og fylgikvillar mænuskaða geta verið með ýmsu móti er þörf á sérhæfðri meðferð, endurhæfingu og eftirliti.

Markmið: Safna upplýsingum um eðli áverkanna í þeim tilgangi að bæta meðferð. Skipuleggja samhenta hópvinnu þeirra lækna, taugaskurðlækna og endurhæfingarlækna sem fást við mænuskaða.

KOMA Á FÓT ÞVERFAGLEGUM TEYMUM SEM SJÁ UM UMÖNNUN OG ENDURHÆFINGU MÆNUSKADDAÐRA

Betri árangur næst ef meðferð er markviss.

Markmið: Setja á stofn sérhæfðar mænuskaðadeildir eins og þær sem þegar hafa sannað gildi sitt. Hvetja þverfagleg teymi til að afla sér sérfræðiþekkingar og nýta hana í starfi. Byggja upp heilbrigðiskerfi sem kemur til móts við þarfir þeirra sem glíma við afleiðingar mænuskaða.

VIRKJA ALMENNING Á NORÐURLÖNDUM

Hinn almenni borgari getur haft áhrif á sína eigin áhættu í framtíðinni og þá ummönnun sem hann kann að þarfnast ef slys ber að höndum.

Markmið: Gera almenning og heilbrigðisstarfsmenn meðvitaðri um mænuskaða. Senda út afdráttarlaus skilaboð til Norðurlandanna um að samhæfa og styðja baráttuna með norrænu átaki.

Norræna mænuskaðaráðið (NORR) gaf þetta skjal út í janúar 2009. Starfshóp á vegum ráðsins skipuðu: Jón Eiríksson (Is), Lars Andersson (S), Leif Arild Fjellheim (N), Mikkel Bundgaard (D), Niels Balle (D), Paula Mustalahti (F) og Tiina Siivonen (F). Sérfræðilegir ráðgjafar hópsins voru: Anne-Cathrine Kraby (N), Antti Dahlberg (F), Gunilla Åhrén (S), Kathi Sørvig (N) og Ruth Antosz (D). Íslensk þýðing á þessu skjali: Jón Sigurðsson.

 

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323