SEM logo

SEM logo

SEM logo

Efni: Afstaða breytinga/frestunar á byggingarreglugerð.

Herra: Sigurður Ingi Jóhannsson

Þann 16. apríl 2013 tóku breytingar á byggingarreglugerð nr.112/2012 gildi.Þar á meðal með einhverjum breytingum hvað varðar aðgengi fyrir fatlaða og þá sem nota hjólastóla að staðaldri. Helstu breytingarnar eru þær að í nýju reglugerðinni eru útskýringar eða orðalag hvað varðar aðgengismál mun skýrari og erfiðara er að mistúlka og fara framhjá reglunum líkt og hefur verið gert síðustu áratugi.

Með því að breyta byggingarreglugerðinni með þeim hætti að hér væri hægt að byggja ódýrara og lélegra húsnæði sem myndi bara henta hluta þessa samfélags, værum við að fara að minnsta kosti 4 áratugi aftur í tímann.

Svo er það spurningin hverjir þurfa á ódýrara húsnæði að halda? Einhverjir myndu segja námsmenn. Ég vil bara benda á að fatlað fólk eru líka námsmenn. Aðrir myndu segja aldraðir, aldrað fólk er nú að ná mun hærri aldri en áður og búa lengur sjálfstæð og notast oft við hjálpartæki eins og stafi, göngugrindur og hjólastóla, ekki gætu aldraðir búið þar... Og svo myndu aðrir segja öryrkjarnir. Stór hluti öryrkja eða allflestir eru eitthvað fatlaðir, svo ekki gætu þeir búið þar.

Þetta er að verða ansi skökk mynd sem erfitt er að skilja með rökum og held ég að það sé frekar verið að reyna að kaupa sér atkvæði eða vinsældir á fölskum forsendum. Því fólk á besta aldri, í blóma lífsins og algjörlega frískt myndi aldrei fá betri kjör um búsetu en einmitt fatlað fólk, aldraðir og öryrkjar. Þó svo að það yrði eitthvað ódýrara að byggja, sem myndi að öllum líkindum ekki vera, er ég nokkuð viss um að leigan eða íbúðarverð yrði ekki lægri, því það er markaðurinn sem ræður en ekki byggingarkostnaður.

Fólk sem er bundið hjálpartækjum verður fyrir mestu mannréttindarbrotum í íslensku samfélagi dag hvern, og aðgengi í íslensk mannvirki eru til háborinnar skammar og niðurlægjandi að taka það saman.

Það er eins og samfélagið geri sér ekki grein fyrir því að fatlað fólk sé hluti að einhverju. Það er eins og að við eigum að geta látið okkur nægja að fara út í búð og aftur heim. Við eigum börn, foreldra, syskini, ömmur og afa, svo ekki sé talað um vini og ættingja og vini barna okkar og svo má lengi telja áfram. Þetta eru allt staðir sem við þurfum að komast til, en þessir staðir eru flestir óaðgengilegir eins og staðan er í dag fyrir fólk sem notar hjálpartæki að staðaldri. Við getum þurft að horfa á eftir börnunum okkar ganga inn í hús hjá vinum sínum sem þau voru að kynnast og vita engin deili á foreldrum þeirra, svo er ómögulegt að komast að húsinu eða útidyrum þeirra til þess að athuga með börnin. Þetta er algjörlega óviðunandi og hreint fáránlegt árið 2013!

Arnar Helgi Lárusson

Það er því skoðun okkar hjá SEM að það má alls ekki hreyfa við þeim kafla um aðgengi reglugerðarinnar nema til hins betra og það er ekki eins og hún sé fullkomin fyrir hjálpartækjanotendur.

Og það sem betur mætti fara, væri að hlutdrægur eftirlitsaðili á vegum ríkis eða sveitarfélaga með hagsmuni hjálpartækja notanda að leiðarljósi, passaði frekar uppá að farið sé eftir reglum. Því hjálpartækjanotendur komast oftast ekki að framkvæmdarsvæðum fyrr en að búið er að framkvæma með tilheyrandi göllum sem getur oft verið erfitt og kostnaðarsamt að lagfæra svo að það standist reglugerðina. Og þá er því bara sópað undir mottuna og ekkert gert. Í síðstu byggingarbólu var eftirlit með nýbyggingum stórlega ábótavant og er mikill hluti þeirra blokka og fjölbýlishúsa sem var byggt þá, stórlega ábótavant hvað varðar aðgengi, sem aðallega má sjá í háum þröskuldum, kantsteinum og pöllum. Ef eftirlit hefði verið í lagi þá hefði kostnaður við að hafa gott aðgengi við mikinn meiri hluta af þessum eignum ekki orðið ein einasta króna.

Við gerum okkur vel grein fyrir því að það verður aldrei allt í kringum okkur aðgengilegt og við það verðum við að læra lifa, og það gera flestir. En að við þurfum að vera á varðbergi hvað varðar framkvæmdir og að byggingarreglugerðum sé framfylgt, er fáránlegt í alla staði. En þetta er blákaldur veruleiki fólks í hjólastólum.

Stjórn SEM fer þess á leit við ráðherra að kafla um aðgengismál verði ekki breytt eða frestað, heldur látið halda sér.

Með von um svör hver afstaða ráðuneytisins sé og í hvaða farvegi þessi mál eru.

Arnar Helgi Lárusson

Formaður SEM

Birt í morgunblaðinu 24. september 2013

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323