SEM logo

SEM logo

SEM logo

Arnar Helgi Lárusson Formaður SEMÉg ætla að varpa fram sprengju!

Í ljósi þess að ég er lesblindur, ofvirkur og að öllum líkindum með athyglisbrest vil ég byrja á því að benda ykkur á það að ég hef alla ævi talið það vera kost frekar en ókost og hvað þá fötlun. Ég er fæddur og uppalinn í Keflavík og ég fann mig aldrei í skóla og hef í raun ekki tölu á því hversu oft ég var rekinn úr skóla og á endanum kláraði ég aldrei skóla. Ungum bauðst mér pláss á sjó og frá þeim degi og til dagsins í dag hef ég haft vinnu og nóg við að hafast. Þessu vil ég þakka þessum kostum sem sem ég taldi upp hér á undan, sem eru lesblinda, ofvirkni og athyglisbrestur, að ég lærði að fara mínar eigin leiðir.

Árið 2002 lenti ég í alvarlegu umferðaslysi og lamaðist fyrir neðan brjóst, og með mínum kostum tókst mér að ljúka sjúkrahúsdvöl minni og endurhæfingu á þremur mánuðum og þess má geta að ég braut meðal annars fimm hryggjaliði. Áður en að ég slasaðist hafði enginn mænuskaði klárað endurhæfingu á minna en 9 mánuðum og u.þ.b ári eftir slys var ég kominn á fullt í samfélagið á ný hvað varðar leik og starf.

Í dag upplifi ég mig ekki fatlaðan nema þegar aðstæður í þjóðfélaginu hvað varðar aðgengi og aðgang að réttum hjálpartækjum er skertur. Því hef ég nú í seinni tíð verið að þoka mér meir og meir inn í baráttu málefna fatlaðs fólks og sér í lagi hjálpartækja notanda og er svo komið að ég er orðinn formaður SEM sem er samt bara lítill hluti hjálpartækjanotenda hér á landi.

Í ljósi þess að á aðalfundi ÖBÍ þann 10.okt sl. skapaðist mikil umræða um hverjir ættu rétt á því að vera þar og hverjir ekki, hverjir væru öryrkjar og hverjir ekkki og hverjir væru fatlaðir og hverjir ekki. Þá langar mig að velta þeirri spurningu upp hvort að þeir sem telja sig líkamlega fatlaða eins og þá sem hafa skerta hreyfigetu, skerta sjón og skerta heyrn og eða allir þeir sem verða fyrir skertu aðgengi að verulegu leiti í þessu þjóðfélagi vilji stíga út úr ÖBÍ og ganga saman undir aðildarfélag um skert aðgengi.

Það er mín skoðun að ímynd ÖBÍ er mjög léleg og titla ég mig aldrei sem öryrkja og nú í aðdraganda þessara formannskosningar var ég farinn að skammast mín fyrir að tilheyra þessum hópi, þar sem hann er nú farinn að telja 27 þúsund manns og lítið annað heyrist en kjaramál og skerðingar á launum öryrkja, og frambjóðendur voru komnir í kosninga baráttu í fjölmiðlum eins og stjórnmálaflokkar.

Mér er í raun alveg sama hvort ég fái 100 kr meira eða minna í örorkubætur og hver tekjuskerðingin hjá mér er vegna þess að ég er í vinnu, ég er í vinnu og það er það sem skiptir máli. Það skiptir mig máli að hafa aðgang að öllum byggingum þessa lands og fá þau hjálpartæki sem ég þarf svo ég upplifi mig ekki sem fatlaðan. Og hvað varðar kjaramál, væri nær að berjast fyrir flokka skiptingu, hærri bætur fyrir meira skerta og lægri bætur fyrir minna skerta. Það er ótrúlegt að bakveikur hafi sömu bætur og fjölfatlaður. Með þessu gætu þá öryrkjarnir barist fyrir kjaramálum sínum og öllu sem því fylgir, og við sem erum líkamlega fötluð barist fyrir okkar málefnum. Með þessu myndi nást meiri sátt innan aðildarfélaganna og fólk gæti einbeitt sér betur að líkum sjónarmiðum en ekki eyða dýrmætum tíma í þras um hvað á að gera og hvað á ekki að gera.

Það er mín skoðun að manneskja sem er ekki líkamlega fötluð sjái ekki okkar sjónarmið í réttu ljósi og beri þar af leiðandi hag okkar ekki að leiðarljósi. Þetta er ekki persónuleg árás á Ellen en ég vil benda á að hún hlaut mjög lítinn meirihluta sem getur einfaldlega verið vegna þess að líkamlega fatlað fólk er í

miklum minnihluta innan ÖBÍ og eru fulltrúar frá félögum þeirra sem eru líkamlega fötluð yfirleitt bara með tvo fulltrúa þar sem þessir hópar fara ekki yfir 100 félagsmenn. En þeir flokkar sem tilstanda af öðrum flokkum eru með allt upp í 6 fulltrúa, þar sem félög þeirra eru að telja einhver hundruð félagsmanna og upp í nokkur þúsund. Það hefur verið tilfinning mín í góðan tíma að okkar fötlunarflokkar hafi verið að fjarlægjast stefnur/stjórnun ÖBÍ og við erum einfaldlega að vera týnd í þessum mikla fjölda fólks sem tilheyrir ÖBÍ.

Ég er ekki að segja að aðrir fötlunar flokkar hér eigi ekki sinn rétt, bara benda á að við eigum enga samleið með þeim.

Ég er ekki heldur að segja að við sem erum líkamlega fötluð eigum að rjúka úr ÖBÍ heldur bara skoða stöðu okkar vel og ræða hverjir möguleikar okkar eru. Vilja menn hittast eða eigum við bara að bíða og sjá hvað gerist?

Það er því spurning mín til ykkar, hvar eru þið stödd í aðgengismálum og hjálpartækjamálum og undir hjálpartækjum er ég einnig að spyrja um túlka og aðstoðarfólk? Svo að við getum komist um þetta samfélag með góðu móti til þess að eyða þessum 100 kr sem endalaust er hægt að bítast um!

Kær kveðja

Arnar Helgi Lárusson

Formaður SEM

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323