SEM logo

SEM logo

SEM logo

arnarhKjarabætur fyrir fólk með skyn- og hreyfihömlun myndi lítið sem ekkert bæta lífsgæði okkar miðað við aðrar hindranir sem standa okkur í vegi.

Það sem bætir lífsgæði okkar er geta verið þátttakandi í samfélaginu, geta tjáð sig og hlýtt á aðra.

Samfélagsleg einangrun er ekki hægt að bæta upp með krónum og aurum, því skora ég á þá þingmenn og ráðamenn þjóðarinnar sem vilja gera fötluðu fólki lífið eitthvað einfaldara að tryggja okkur aðgang að túlkum, aðgengi að byggingum og aðstoð innan sem utan heimilis. Það er einmitt á svona dögum sem við erum algjörlega einangruð frá samfélaginu vegna hörmulegrar þjónustu hjá bæði ríki og sveitarfélögum við skyn- og hreyfihamlaða og þurfum við oftar en ekki að húka heima hjá okkur vegna þess að við fáum ekki nauðsynlega þjónustu við mokstur eða leiðsögn milli staða og umhverfið er okkur orðið hættulegt.

Það að vera skyn- og hreyfihamlaður hefur verulega aukinn kostnað í för með sér sem oft er ekki rætt um. Hafa ber í huga að þessi hópur er ekki allur á örorkubótum og margir þurfa þess vegna að koma sér til og frá vinnu sem verður oft til þess að þegar búið er að borga verktakanum fyrir að moka innkeyrsluna hjá sér eða skafa bílinn eða láta fylgja sér í vinnu og heim, þá er dagurinn kominn í mínus og þetta kallar maður mínusdaga. Á Íslandi eru margir mínusdagar og þeir verða til þess að fatlaður einstaklingur með skyn- og hreyfihömlun, sem er með fín laun er farinn að hafa minna en örorkubætur. Þar að auki þarf dýrara húsnæði sökum þess að það þarf að vera stærra vegna fötlunarinnar og greiða þar af leiðandi hærri fasteignargjöld sökum stærðar hússins, greiða fyrir þrif á heimilinu, greiða meiri bensínkostnað þar sem bíllinn sem sumir þurfa að nota myndu kallast rútur hjá öðrum. Einnig er oft þörf fyrir aukabíl þar sem það er ekki pláss fyrir restina af fjölskyldunni með í bílnum vegna aukabúnaðar. Auk þess þarf að greiða fyrir ýmsan aukabúnað og þau hjálpartæki og aðrar nauðsynjavörur vegna fötlunarinnar sem eru ekki alltaf að fullu niðurgreiddar af ríkinu. Tugir þúsunda í lyfja- og lækniskostnað, myndatökur og rannsóknir af ýmsum toga, þar sem skyn- og hreyfihamlaðir gera sér oftar en ekki grein fyrir því hvort þeir séu með flensu eða fársjúkir og liggja við dauðans dyr.

Ef það á að fara að tala um jafnrétti, þá verður að tala um jafnrétti alla leið. Það að vera lesblindur eða með athyglisbrest og/eða einhvern sjúkdóm sem hægt er að halda niðri með lyfjum getur ekki talist til jafns við það að vera með skyn- og/eða hreyfihömlun og það veit vel sá sem hér skrifar því þetta eru að eins og aukverkanir hjá mér, sem hægt er að lifa með.

Ég skora því hér með á stjórnvöld að skoða vel hvar þörfin er mest, hverjir eru með mestu skerðingarnar og halda frekar aukakostnaði niðri hjá því fólki, því það skiptir okkur minna máli ef við fáum einni krónu meira eða minna. Það skiptir okkur stórmáli hvort við greiðum tugi þúsunda í allskonar aukakostnað sem fylgir því að vera skyn- og hreyfihamlaður.

Kær kveðja Arnar Helgi
Formaður SEM samtakanna

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323