SEM logo

SEM logo

SEM logo

stjorn19

306af

Húsið var byggt fyrir um 30 árum og því tími kominn á að endurnýja íbúðirnar að innan í samræmi við kröfur nútímans um aðgengi og útlit. Íbúðirnar voru byggðar á mjög ódýran máta og farið er að sjá verulega á ýmsu vegna aldurs og ágangs. Einnig hafa ýmis atriði er varða aðgengi fólks í hjólastólum verið til vandræða fyrir íbúa sem komið hafi í ljós með árunum. Baðherbergið var tekið alveg í gegn, skipt var um alla skápa og eldhúsinnréttingu, hurðum skipt út fyrir rennihurðir, skipt var um allt gólfefni, íbúðin skipulögð upp á nýtt til að nýta rýmið betur, ásamt ýmsu öðru. Íbúðina fengu Fannar Freyr Þorbergsson og unnusta hans Kristjana Kristjánsdóttir. Fannar hlaut hálsmænuskaða fyrir um ári síðan og mun íbúðin eflaust reynast þeim vel. Afar mikilvægt er að fólk sem lendir í óvæntum áföllum líkt og að skaddast á mænu hafi aðgang að íbúðum sem henta þeim strax að endurhæfingu lokinni. SEM-húsið gegnir því hlutverki en mjög algengt að mænuskaddaðir einstaklingar nýti sér það sem stökkpall út í lífið.

 • 306
 • 306
 • 306
 • 306
 • 306
 • 306
 • 306
 • 306
 • 306
 • 306
 • 306
 • 306a
 • 306

Kæru félagsmenn SEM og velunnarar

Undanfarnar vikur hefur verið unnið við að færa allt utanumhald um orlofshúsið okkar á Akureyri til betri vegar. Í dag var tekið í notkun vefsvæði sem ber nafnið Frímann, um er að ræða vefsíðu sem auðveldar notendum að panta og sjá hvaða tímabil er laust.
Áhugasömum er bent á að kynna sér þessar breytingar á eftirfarandi vefslóð: http://orlof.is/sem/

Með bestu kveðju,
Orlofsnefnd SEM

41342890 1104615799704134 948166089890594816 o

Eins og áður hefur komið fram þá tóku sjö þátt í Reykjavíkurmaraþoni fyrir hönd SEM og fóru m.a. þrír þeirra heilt maraþon. Alls söfnuðust 778.500 kr. Í þakklætisskyni bauð stjórn SEM þessum einstaklingum til kvöldverðar s.l. fimmtudagskvöld, sem allir þáðu með góðri þökk og úr varð góð kvöldstund. Á næsta ári er von okkar að sömu aðilar taki aftur þátt og fleiri bætist í hópinn.
Enn og aftur þakkar stjórn SEM öllum sem tóku þátt og jafnframt því góða fólki sem styrkti framlag þeirra.

Nú er sumri farið að halla og vetrardagskrá að taka við. Þriðjudaginn 21. ágúst verður fyrsta jafningjafræðsla fyrir komandi vetur fyrir nýslasaða og aðra á Grensás. Fulltrúar SEM samtakanna verða á staðnum alla þriðjudaga í vetur á milli 15:00-17:00.

marathon18

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram laugardaginn 18. ágúst en segja má að maraþonið sé undanfari menningarnætur í Reykjavík. Eins og undanfarin ár geta þátttakendur valið góðgerðarfélög til hlaupa fyrir og safna áheitum sem renna svo óskipt til viðkomandi góðgerðafélags. Í ár hlaupa sjö einstaklingar til styrktar S.E.M samtakanna og þegar þetta er skrifað (á þriðjudagseftirmiðdegi) hafa þeir safnað áheitum sem nemur 273 þúsund krónum. Flestum áheitum hefur Leifur Grétarsson safnað eða 159 þúsund krónum.

Þess má geta að tveir einstaklingar sem hlotið hafa mænuskaða, þau Hákon Atli Bjarkason og Jóna Kristín Erlendsdóttir taka þátt í hlaupinu. Við skorum á sem flesta meðlimi í S.E.M samtökunum og aðra velunnara að styrkja þá sem hlaupa fyrir samtökin þetta árið og styðja þannig við starfsemi samtakanna.

Hér má finna upplýsingar um hlaupið og styrkja þessa einstaklinga

Í vetur, eins og undanfarin ár hafa fulltrúar frá SEM samtökunum staðið fyrir jafningjafræðslu fyrir nýslasaða og aðra á Grensás milli kl. 15:00-17:00 á þriðjudögum.
Fræðslan er nú komin í sumarfrí fram í ágúst. 
Nánari upplýsingar um hvenær hún hefst aftur verður auglýst síðar.

14559984-312055205841381-2136446344744190331-o

Kæru félagsmenn og aðrir velunnarar SEM

Viljum vekja athygli ykkar á að enn eru fjórar vikur lausar í orlofshúsinu okkar að Kjarnagötu 41 Akureyri. https://www.orlof.sem.is/
28.maí – 4. júní
4. júní – 11. júní
18. júní – 25. júní
20. ágúst – 27. ágúst

Bendum á að þrif eru innifalin í verði.
Félagsmenn SEM 35.000 kr. vikan
Aukafélagsmenn SEM 45.000 kr. vikan
Almennt verð 55.000 kr. vikan

Vinsamlegast hafið samband við:
Jóhann Rúnar Kristjánsson This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Egill St. Fjeldsted This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

stjorn18-r

Aðalfundur SEM samtakanna var haldinn fimmtudaginn 26. apríl s.l.. Bauð formaður félagsins, Arnar Helgi Lárusson, alla velkomna.
Að því búnu las hann upp skýrslu stjórnar SEM. Kom þar m.a. fram að Grensás verkefnið (jafningjafræðsla) gengi vonum framar og fengi sífellt meira lof, jafn hjá þeim sem nýttu þjónustuna og fagfólks á Grensás. Einnig kom fram að styrkir til SEM hefðu bæði verið fleiri og hærri en undanfarin ár sem væri í samræmi við þátttöku félagsmanna í réttinda- og hagsmunamálum. Enn fremur sagði Arnar frá framkvæmdum á sal, sem hefðu verið mun umfangsmeiri og dýrari en gert var ráð fyrir við upphaf framkvæmda. Þrátt fyrir erfiðleikana mættu allir vera stoltir af útkomunni. Að lokum greindi hann frá að happdrættið hefði gengi vel og nánast allar vikur í orlofshúsinu á Akureyri væru bókaðar.

Næstur á mælendaskrá var Árni Geir Árnason sem flutti skýrslu stjórnar H-SEM. Í máli hans kom m.a. fram að ekki hefði gengið að fá starfsmenn á vegum Fangelsismálastofnunar til aðstoðar við tilfallandi verkefni í og við hús samtakanna. Sama ætti við um að fá góða iðnaðarmenn á samgjörnum launum til starfa vegna uppgangs í þjóðfélaginu. Einnig kom fram í máli hans að lokið hefði verið við ástandskönnun á íbúðum á Sléttuvegi 3. Leiddi sú könnum í ljós að ástand margra þeirra væri óviðunandi. Í því samhengi væri nú fallið frá áformum um að breyta íbúðunum að fyrirmynd MSD félagsins (íbúð 301) vegna kostnaðar á hverja íbúð. Þess í stað ætti að setja aukinn kraft í venjulegt viðhald. Að lokum nefndi Árni Geir að skrifstofa samtakanna muni fljótlega taka í notkun bókhaldskerfið DK, sem muni gjörbreyta öllu er varðar bókhald og skilum á ársreikningum.

Þegar skýrslur höfðu verið fluttar var kosið í hinar ýmsu stjórnir og nefndir og má þar helst nefna:
Stjórn SEM
Formaður; Arnar Helgi Lárusson
Ritari; Jóhann Rúnar Kristjánsson
Gjaldkeri; Agnar Ingi Traustason
Meðstjórnandi 1; Rúnar Björn Herrera Þorkelsson
Meðstjórnandi 2; Arna Sigríður Albertsdóttir
Meðstjórnandi 3; Egill St. Fjeldsted
Meðstjórnandi 4; Aðalbjörg Guðgeirsdóttir

Stjórn H-SEM
Meðstjórnandi 0; Arnar Helgi Lárusson (sjálfkjörinn sem formaður SEM)
Meðstjórnandi 1; Aðalbjörg Guðgeirsdóttir
Meðstjórnandi 2; Árni Geir Árnason
Meðstjórnandi 3; Rúnar Björn Herrera Þorkelsson
Meðstjórnandi 4; Egill St. Fjeldsted
Varastjórnandi 1; Jóna Marvinsdóttir
Varastjórnandi 2; Guðný Guðnadóttir
Varastjórnandi 3; Jóna Kristín Erlendsdóttir

Að loknum almennum umræðum var fundi slitið. Alls mættu 23 manns, tæplega ¼ félagsmanna, á fundinn og þarf að leita nokkur ár aftur í tímann til finna jafn góða mætingu.

Að fundi loknum hélt Stuðlaberg, áður Eirberg, afbragðs kynningu á hjólastólum, SmartDrive hjálparmótor og FreeWheel hjóli. Í máli Jóhönnu Ingólfsdóttur, iðjuþjálfa, kom fram að SmartDrive og FreeWheel væru nú í samningi hjá Sjúkratryggingum Ísl.

 Jóna Kristín Erlendsdóttir

Ef ég ætti að svara hvernig er best að koma fram við fólk með mænuskaða er stutta svarið nokkuð einfalt: bara alveg eins og við alla aðra. Auðvitað verða sumir vandræðalegir eða vita ekki alveg hvernig á að haga sér þegar þeir kynnast nýju og „öðruvísi" fólki, sem er hið eðlilegasta mál. Ég ákvað að telja upp nokkur atriði sem er gott að hafa í huga í samskiptum við fólk með mænuskaða/fólk í hjólastól.

1. „Hvað gerðist/af hverju ertu í hjólastól?" – Ég get ekki talið hversu oft ég hef fengið þessa spurningu. Að mínu mati er mjög eðlilegt að vera forvitinn, en mér finnst óþægilegt að svara þessu þegar fólk sem ég veit ekki einu sinni hvað heitir spyr mig. Það er algengt að fólk spyrji mig niðri í bæ á djamminu, enda margir búnir að fá sér nokkra (og nokkra í viðbót eftir það). Ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá kom ég bara niður í bæ til að skemmta mér, ekki lýsa því hvað kom fyrir mig fyrir ókunnugu fólki. Fyrir mér er þetta dálítið eins og að segja við einhvern niðri í bæ: „Jæja, segðu mér nú frá einhverju af því versta sem hefur komið fyrir þig" Eru ekki annars allir til í að tala um svoleiðis á djamminu?

2. Persónulegt rými – Það gæti vel verið að þetta eigi ekki við nærri því alla sem nota hjólastól eða eru með mænuskaða. Mín upplifun er samt sú að mörgu fólki finnist bara allt í lagi að setjast á mig eða taka í stólinn minn. Þá er ég að tala um ókunnugt fólk auðvitað. Vinsamlegast ekki setjast á fólk nema þú fáir leyfi hjá því, hvort sem það er í hjólastól eða ekki. Þó að sumt fólk í hjólastól þurfi hjálp við eitthvað, þurfum við samt okkar persónulega rými og finnst ekkert endilega þægilegra en öðrum að fólk sé að snerta okkur eða stólinn okkar. Það er líka mjög óþægilegt þegar einhver tekur í stólinn og dregur mig eða ýtir mér áfram án þess að biðja um leyfi. Ég veit að oft vill fólk bara hjálpa en þú veist í rauninni ekki hvað manneskjan getur nema þú þekkir hana, það er ótrúlega misjafnt hvað fólk í hjólastól getur gert (sumir komast meira að segja upp stiga í hjólastól, takk fyrir kærlega!) Þess vegna gæti vel verið að manneskjan þurfi ekki hjálp. Ef mig bráðvantar hjálp þá bið ég bara um hjálp, auk þess sem ég er yfirleitt með fólki sem kann að hjálpa mér. Hvernig myndir þú bregðast við ef þú værir að fara að labba yfir götu eða upp stiga og einhver ókunnugur myndi taka í höndina á þér og draga þig áfram? Ég held að tilfinningin sé frekar svipuð og þegar fólk tekur óvænt í stólinn.

3. „Hvað langar hana/hann í?" – Ég hef reyndar ekki lent í þessu sjálf og ég held að þetta sé ekki eins algengt í dag og það var. Þetta hefur þó komið upp í umræðum hjá mænusködduðum. Málið er semsagt að sumir, t.d. starfsmenn á veitingahúsi, spyrja þann sem er með manneskjunni í hjólastólnum hvað hún vilji, t.d. ef ég væri á veitingahúsi og þjónninn myndi spyrja vin minn hvað mig langaði í, í stað þess að spyrja mig. Ég held að þetta sé aðallega einhver feimni eða að fólk heldur að við séum ekki fær um að tala fyrir okkur sjálf. Ég er ekki viss, ef einhver hefur hugmynd um það myndi ég gjarnan vilja vita hvað málið er.

4. „Má ég PLÍS hjálpa þér?" – þetta getur verið óþægilegt. Ég veit að fólk vill hjálpa (og nei, það segir enginn „má ég PLÍS hjálpa þér?") en mér líður stundum eins og það sé ekki hægt að segja bara: „nei, takk!" Sumir halda áfram að spyrja: „ertu viss? Viltu ekki fara niður þennan stiga/viltu ekki fara inn um þessa hurð?/á ég ekki að lyfta þér upp/á ég ekki að HJÁLPA þér?" Ef ég segi nei, þá þýðir það bara nei. Ég er ekki að segja það til að vera hógvær eða kurteis, ég meina bara: „takk kærlega fyrir að bjóðast til að hjálpa mér, en ég vil ekki hjálp". Stundum vil ég líka bara hjálp frá vinum mínum eða fjölskyldu, ekki ókunnugu fólki (sjá lið 2). Ég treysti ekkert endilega einhverju blindfullu fólki niðri í bæ til að hjálpa mér upp og niður stiga. Fólk þarf ekki að hjálpa mér til að hafa gert eitthvað gott, það er meira en nóg að hafa boðist til að hjálpa.

5. „Þú ert hetja" – Ég veit ekki alveg hvernig öðrum líður þegar þeir heyra þetta en mér líður skringilega þegar ég heyri þetta. Mér finnst ég bara ekki eiga skilið svona stórt hrós. Jú, kannski ef ég myndi bjarga einhverjum úr brennandi byggingu. Mér finnst skiljanlegt að fólk sem þykir vænt um mig segi svona, enda þekkir það mig og mína sögu og veit hvernig það var fyrir mig að lamast. En þegar ókunnugt fólk segir þetta...ég veit ekki. Ég gæti alveg verið manneskja sem hatar hvolpa og skrifar dónaleg ummæli á DV, þó ég sé í hjólastól. Það að ég hafi átt erfitt gerir mig ekki að engli eða frábærri manneskju eða hetju. Mér finnst fólk vera að horfa á stólinn þegar það segir svona, ekki mig, því það veit ekki hvernig manneskja ég er.

6. „þú ert svo dugleg að vera bara úti á meðal fólks!" – Er það samt? er það ekki bara eðlilegt að vilja vera í kringum fólk svona endrum og sinnum? Sumir (ókunnugir) hafa sagt við mig að þeir hefðu ekki þorað að mæta (hvar sem samtalið átti sér stað) ef þeir væru í hjólastól. Ég efast um að þeir hafi meint að það sé asnalegt að vera í hjólastól, svo mitt gisk er að fólk haldi að það sé erfitt að vera í kringum fólk af því að maður er öðruvísi, fólk tekur meira eftir manni og sumir horfa kannski meira á mann. En það venst! Hluti af endurhæfingunni felst í því að fara út á meðal fólks. Ef ég hefði verið lokuð inn á Grensás í hálft ár og aldrei farið út væri ég örugglega skíthrædd við að fara í Kringluna eða í skólann. En maður tekur bara eitt „rúll" í einu og venst því smám saman að stóllinn sé hluti af lífi manns.

Svona í lokin vil ég taka það fram að fólk er langoftast mjög almennilegt og ekkert skrítið í kringum mig (ekki svo ég hafi tekið eftir allavega). Það sést vel hvað fólk getur verið frábært þegar maður þarf hjálp eða líður illa. Ég veit líka að fólk meinar vel og þessi pistill er ekki gerður til að skamma neinn. Þvert á móti vona ég að hann hjálpi fólki að sjá að það þarf ekkert að stressa sig í kringum fólk sem er með mænuskaða eða í hjólastól, við erum bara venjulegt fólk eins og allir aðrir!

Ég vil benda á að allir eru mismunandi og skoðanir sem koma fram í þessum pistli eru mínar eigin og endurspegla ekki endilega hvernig öðrum líður þegar kemur að þessum málum.

Höfundur: Jóna Kristín Erlendsdóttir

SEM samtökin | Sléttuvegi 3 | 103 Reykjavík | Sími: 588 7470 | Tölvupóstfang: sem@sem.is

Skrifstofan er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 13:00 til 15:30 Símsvörun alla virka daga frá 13:00 til 17:00

Kennitala: 510182-0739  Reikningsnúmer: 0323 26 001323